Gerð náms- og rannsóknaráætlunar og framvinda námsins

Á fyrstu fundum í upphafi náms er gert ráð fyrir að leiðbeinandi og doktorsnemi meti hvernig best verður staðið að verki, hvaða færni og kunnáttu nemandinn þarf að tileinka sér til að vinna verkefnið, hvaða námskeið nemandinn þarf að sækja o.s.frv. Þá eru lögð drög að áætlun um rannsókn og sett tímamörk. Námsáætlun skal vera skrifleg og samþykkt af leiðbeinanda og nemanda. 

Reglur deilda kveða nánar á um námsáætlun, rannsóknarvinnuna og framvindu námsins og geta einstök atriði og áherslur verið nokkuð mismunandi frá einni deild til annarrar. Fullbúin rannsóknaráætlun lýsir fræðilegu baksviði rannsóknarinnar, skipulagi hennar og framkvæmd. Þar komi fram skýr áætlun um uppbyggingu doktorsritgerðarinnar, nákvæm lýsing á markmiði rannsóknar, fræðilegur grundvöllur verkefnis, rannsóknaspurningar, útlistun á aðferðafræði sem beitt verður ásamt rökstuðningi fyrir henni, gagnasöfnun, kostnaðaráætlun ef við á og tímaáætlun allra framkvæmdaþátta rannsóknaráætlunar, m.a. um ritun einstakra kafla ritgerðar. Ef verkefnið er komið nokkuð á leið þegar sótt er um námið er eigi að síður nauðsynlegt að rannsóknaráætlunin verði lögð fyrir doktorsnefnd. 

Æskilegt er að í rannsóknaráætlun komi einnig fram, eftir því sem kostur er, hugmyndir um ráðstefnur og námskeið innanlands og erlendis sem doktorsnemi hyggst sækja á námstímanum og fyrirhuguð greinaskrif. Oft er doktorsnám að einhverjum hluta í tengslum við erlendan háskóla, t.d. þannig að neminn taki hluta námsins við hann eða fulltrúi hans sitji í doktorsnefndinni. 

Í sumum deildum er gert ráð fyrir að leiðbeinandi og nemandi skrifi hvor um sig stutta skýrslu til doktorsnefndar sem og fastanefndar fræðasviðs við lok hvers háskólaárs þar sem árið er gert upp, tekin afstaða til efnisatriða s.s. einingafjölda, framvindu rannsókna, hugsanlegra vandamála, vinnuálags á nemanda og annarra atriða sem vert þykir að nefna. Framvinduskýrslurnar skulu varðveittar í skjalasafni viðkomandi fræðasviðs.

Í lok hvers misseris skal leiðbeinandi koma upplýsingum um framvindu námsins til starfsmanns deildar sem sendir Nemendaskrá beiðni í tölvupósti um skráningu framvindunnar og einingafjölda. 

Eins og að framan greinir er doktorsnemi ábyrgur fyrir skráningu sinni í nám og fylgist viðkomandi fræðasvið með því að skráningarreglum sé framfylgt. Miðstöð framhaldsnáms sannreynir jafnframt að nemendur í doktorsnámi séu ávallt skráðir við Háskóla Íslands á meðan á námi stendur. Einnig staðfestir Miðstöðin námsáætlanir doktorsnema.

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is