Efnisyfirlit námsáætlunar

Doktorsnemi, leiðbeinandi og [deild, fræðasvið] gera í upphafi náms skriflegan námsáætlun sem kveður m.a. á um gagnkvæmar skyldur og réttindi doktorsnema, leiðbeinanda, doktorsnefndar og Miðstöðvar framhaldsnáms fyrir hönd Háskóla Íslands. Í námsáætluninni skal m.a. kveðið á um eftirtalin atriði:

  1. Heiti og stutta lýsingu doktorsverkefnis.
  2. Áætlun um fjármögnun námsins og námstíma.
  3. Samskipti leiðbeinanda og doktorsnema, þ.e. skuldbindingu leiðbeinanda til að veita doktorsnema leiðbeiningu og aðra aðstoð eftir því sem við á og skuldbindingu doktorsnema til að sinna náminu af kostgæfni, í samræmi við ákvæði þessara viðmiða.
  4. Aðstöðu til náms, þ.e. eftir því sem við á skuldbindingu stofnunarinnar til að veita doktorsnema viðunandi starfsaðstöðu, tryggja öryggi, velferð og heilbrigði doktorsnema og veita honum aðra aðstoð, s.s. við fjármögnun námsins, og skuldbindingu doktorsnema til að hlíta vinnureglum stofnunar og fyrirmælum laga og reglna, s.s. um öryggismál, trúnað o.fl.
  5. Ef doktorsverkefni er að einhverju leyti unnið á vettvangi stofnunar eða fyrirtækis skal gerður um það sérstakur samningur á milli doktorsnema, viðkomandi deildar Háskóla Íslands og stofnunar/fyrirtækis sem í hlut á, þar sem kveðið skal á um aðstöðu, skipan faglegrar ábyrgðar og samskipta, eignarhald gagna, styrki, laun og annað er við getur átt. Samningur þessi fylgi námsáætlun. Miðstöð framhaldsnáms hefur umsjón með gerð slíkra samninga og staðfestir þá fyrir hönd Háskóla Íslands. Viðkomandi doktorsnefnd [eða fastanefnd deildar/fræðasviðs] hefur eftirlit með framkvæmd samnings.
  6. Birtingarrétt, þ.e. eftir því sem við á skil á frumgögnum að loknu námi, skil á handriti að vísindagrein(um) í ritrýnt vísindatímarit, heimild til birtingar doktorsritgerðar, höfundaraðild o.s.frv.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is